Minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

Sunnudaginn 19. nóvember verður þeirra minnst sem látist hafa í umferðarslysum á Íslandi. Efnt verður til þessarar athafnar í sjötta sinn og er hliðstæð athöfn víða um heim að tilhlutan Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu.

Um það bil 4.000 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Enn fleiri þurfa að takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af völdum þessa. Segja má að allir upplifi með einum eða öðrum hætti afleiðingar umferðarslysa. Vart er til sá einstaklingur sem þekkir ekki einhvern sem lent hefur í  alvarlegu slysi í umferðinni.

Athöfn verður við þyrlupall bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í Reykjavík sem hefst klukkan 11. Þar mun forseti Íslands flytja ávarp og meðal þeirra sem taka til máls er Þórir Guðmundsson, lögreglumaður á Ísafirði. Þórir missti Þóreyju tvíburasystur sína í banaslysi á Hnífadalsvegi árið 2006.

Þann 1. nóvember 2017 höfðu alls 1.545 manns látist í umferðinni á Íslandi frá því að skipt var yfir í hægri umferð 26. maí 1968. Að meðaltali hefur umferðarslysum fækkað mikið undanfarna áratugi, sérstaklega banaslysum. Árin 2007-2016 létust að jafnaði 12,3 á hverju ári í umferðinni. Næstu 10 ár þar á undan (1997-2006) létust að jafnaði 24,4 á ári. Því má ætla að með betri bílum, betri vegum og betri hegðun ökumanna hafi tekist að bjarga um 12 mannslífum á hverju ári síðustu 10 árin.

Mikil áhersla hefur verið lögð á fræðslu og leiðbeiningar sem m.a. hefur leitt til breytts viðhorfs til áhættuhegðunar eins og hraðaksturs og ölvunaraksturs. Nýrri tækni fylgja nýjar áskoranir og er farsímanotkun við akstur áhættuhegðun sem hefur stórlega aukist á undanförnum árum og hefur mikil áhrif á hegðun ökumanna og veldur það hvað mestum áhyggjum í umferðaröryggismálum heimsins í dag. Samgöngustofa hefur á undanförnum árum staðið fyrir herferðum gegn farsímanotkun undir stýri sem hefur verið sérstaklega beint að ungu fólki. Á þessu ári hefur verið veitt aukið fjármagn í þessa baráttu og eru í því sambandi ýmiss verkefni nú þegar í framkvæmd og í undirbúningi. Ökumenn eru hvattir til þess að ,,gera ekki neitt“ þegar síminn kallar á athygli þegar þeir eru að keyra.

smari@bb.is

DEILA