Langódýrasta húsnæðið á Vestfjörðum

Íslandsbanki hefur gefið út skýrslu um íslenskan íbúðamarkað og þar kemur fram að húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu er fjórfalt hærra en á Vestfjörðum og er sögulegur munur á milli ódýrasta landsvæðisins og dýrasta, verðmunur á þessum landssvæðum hefur aldrei verið meiri en nú.

Bankinn spáir 20% hækkun íbúðaverðs á þessu ári en 12% á næsta ári og 5% á árinu 2019 og að í lok árs 2019 verði komið jafnvægi í framboð og eftirspurn íbúðahúsnæðis.

Í skýrslunni kemur ennfremur fram að skuldir heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hafi ekki verið lægra frá aldamótum. Veðsetningarhlutfall var 42% um síðustu áramót og hefur helmingast frá 2010, bæði hafa skuldir lækkað og hækkun íbúðaverð leiðir af sér lækkandi veðsetningarhlutfall.

Eigendaskipti íbúða eru tíðust á Suðurlandi og á Suðurnesjum þar sem ein af hverjum níu íbúðum á svæðinu var seld á árinu 2016 að meðaltali. Eigandi skipti íbúða eru fátíðust á Norðurlandi vestra, Austurlandi og á Vestfjörðum.

Nafnverð íbúða hefur hækkað hraðar en byggingarkostnaður á öllum landsvæðum, og er því hagkvæmara að byggja í öllum landshlutum en var árið 2010.

Hérlendis hefur íbúðaverð hækkað umfram laun að undanförnu og því má segja að erfiðara sé, miðað við laun, að kaupa íbúð á Íslandi um þessar mundir en að meðaltali í sögulegu samhengi. Þessi þróun hefur einnig átt sér stað í 14 öðrum aðildarþjóðum efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD og í tilfelli 12 þeirra er ójafnvægi í íbúðaverðs- og launaþróunar meira en hér.

Líkt og komið hefur fram er íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu mun hærra en á öðrum landsvæðum. Hins vegar er munur á launum á milli landsvæða óverulegur. Það gefur til kynna að íbúðareigendur sambærilegra eigna á landsbyggðinni ráðstafi að öðru óbreyttu minni hluta af launum sínum bæði til þess að kaupa og reka húsnæði.

bryndis@bb.is

DEILA