Íslenskan í öndvegi í dag

Á þessum degi fyrir 210 árum fæddist Jónas Hallgrímsson að Hrauni í Öxnadal. Jónas er eitt höfuðskálda íslenskrar tungu og því er einkar vel við hæfi að halda upp á dag íslenskrar tungu á fæðingardegi stórskáldsins. Dagur íslenskrar tungur var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996. Fjölmargir aðilar lögðu hönd á plóg og efndu til viðburða af þessu tilefni. Má þar nefna fjölmiðla, skóla, stofnanir og félög. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hélt hátíðarsamkomu og veitti þar í fyrsta sinn Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskunnar. Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur með svipuðu sniði og sífellt fleiri aðilar taka virkan þátt í honum með ýmsu móti.

Í ár eru nemendur og kennarar hvattir til að vinna saman að gerð örmyndbanda þar sem leitað verði svara við tveimur spurningum: Af hverju er íslenskan mikilvæg fyrir þig? og Af hverju ert þú mikilvæg/-ur fyrir íslenskuna? Myndböndin mega ekki vera lengri en ein mínúta og hugmyndin er að skólarnir birti þau í kjölfarið á vefsíðum sínum og á samfélagsmiðlum. Valin myndbönd verða kynnt á Facebook síðu dags íslenskrar tungu. Merkja skal myndböndin með myllumerkinu #daguríslenskrartungu en þeim má einnig deila á vegg dags íslenskrar tungu á Facebook. Myndbandaherferðin er samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Vigdísarstofnunar.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur falið Stofnun Árna Magnússonar íslenskum fræðum að annast ýmsa verkþætti í tengslum við viðburði á degi íslenskrar tungu 2017.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið sendi öllum skólum og undirstofnunum ráðuneytisins bréf með hvatningu um að nota 16. nóvember, eða dagana þar í kring, til að hafa íslenskuna alveg sérstaklega í öndvegi, meðal annars með því að taka þátt í gerð örmyndbanda.

smari@bb.is

DEILA