Hvessir að norðan

Útlit er fyrir vaxandi norðan- og norðaustanátt í dag með snjókomu eða éljum en legst af verður þó þurrt og bjart sunnantil. Seint í kvöld og í nótt verður vindstyrkurinn kominn í fimmtán til 23 metra á sekúndu norðan- og vestantil en hægara verður um landið suðaustanvert þar til á morgun. Búast má við skafrenningi og lélegu skyggni, einkum á norðvestanverðu landinu. Frost verður allt að tíu stig, mest inn til landsins. Dregur heldur úr vindi og ofankomu norðan- og vestanlands þegar líður á morgundaginn, en bætir í vind á Suðausturlandi með éljum. Áframhaldandi hvöss norðaustanátt fram að helgi með éljagangi og köldu veðri.

Gul viðvörun hefur verið gefin út á Breiðafirði, Vestfjörðum og Norðurlandi. Viðvaranirnar gilda frá klukkan sex í kvöld, nema á Breiðafirði frá átta. Á öllum þessum landsvæðum er varað við norðaustan hvassviðri eða stormi og snjókomu. Viðvaranirnar gilda fram á miðvikudag á Breiðafirði og Vestfjörðum en fram á fimmtudagskvöld á Ströndum og Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra.

smari@bb.is

DEILA