Hreint loft til framtíðar

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur gefið út fyrstu almennu áætlunina um loftgæði fyrir Ísland og ber hún heitið Hreint loft til framtíðar.  Áætlunin gildir fyrir árin 2018 – 2029 og er meginmarkmið hennar að stuðla að loftgæðum og heilnæmu umhverfi.

Loftgæðaáætlunin tekur til þeirra þátta er varða loftgæði utandyra. Í henni koma fram mælanleg markmið, upplýsingar um loftgæði og tímaáætlun, aðgerðir og stefnumörkun til að bæta loftgæði. Við vinnslu áætlunarinnar var tekið mið af Landsáætlun um loftgæði, sem var gefin út af Umhverfisstofnun árið 2010 og skýrslunni Hreint loft, betri heilsa – Umfjöllun um loftgæði og heilsufar á Íslandi ásamt tillögum til úrbóta, sem var gefin út af velferðarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti í apríl 2013.

Í áætluninni er stefnt að því að fækka árlegum ótímabærum dauðsföllum af völdum loftmengunar á Íslandi, fækka árlega fjölda daga þar sem svifryk fer yfir skilgreind heilsufarsmörk af völdum umferðar úr 7-20 skiptum niður í engin skipti fyrir árslok 2029 og að ársmeðaltal brennisteinsvetnis verði áfram undir skilgreindum mörkum.

Áætlun um loftgæði er sett í samræmi við breytingar sem gerðar voru á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir 2013 vegna innleiðingar á evróputilskipun 2008/50/EB um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu.

Á vef stjórnarráðsins segir að þess sé vænst að áætlunin stuðli að heilnæmu umhverfi og bættu heilbrigði í landinu þar sem stjórnvöld, atvinnulífið og almenningur verði samstíga í að viðhalda hreinu lofti.

smari@bb.is

DEILA