Háski – fjöllin rumska

Í kvöld verður í Ísafjarðarbíói sýnd heimildamyndin „Háski – Fjöllin rumska“ sem fjallar um snjóflóðið sem féll á Neskaupstað þann 20. desember 1974. Tólf manns fórust í flóðunum og tveir þeirra fundust aldrei. Myndin var frumsýnd á Neskaupstað 12. nóvember í tilefni opnunar Norðfjarðarganga.

Það voru feðgarnir Þórarinn Hávarðsson og Eiríkur Hafdal sem gerðu myndina. „Við feðgar gerðum mynd fyrir tveimur árum sem heitir Háski í Vöðlavík og eftir þá velgengni þá langaði okkur að fara í eitthvað stærra og gera þessari sögu skil. Fyrst og fremst til að varðveita þessa sögu,“ segir Eiríkur. „Það er farið að kvarnast úr hópnum sem að upplifði þessar hörmungar. Og ég held að mannfólkið hafi bara gott af því að fletta upp svona sögu vegna þess að vonandi er þetta liðin tíð,“ segir Þórarinn. Erfiðast hafi verið að sitja fyrir framan fólkið og hlusta á átakanlegar lýsingar. „Það gat verið mjög erfitt að sjá baráttu fólksins við að reyna að halda andliti og segja þessa sögu. Ég átti á köflum mjög erfitt með að halda andliti sjálfur við að hlusta á þessar frásagnir,“ segir Þórarinn í samtali við RUV.

Myndin verður aðeins sýnd í þetta eina skipti og hefst kl. 20:00

bryndis@bb.is

DEILA