Greina stöðu uppbyggingar í Vesturbyggð

Undanfarið ár hefur Vesturbyggð unnið að undirbúningi fyrir verkefni sem ætlað er að kortleggja stöðu atvinnumála í sveitarfélaginu og hvernig hægt er til framtíðar að skapa aðstöðu fyrir þau fyrirtæki sem hafa vaxið hratt og hafa hug á að efla sig enn frekar innan sveitarfélagsins. Með auknu fiskeldi, ferðaþjónustu og aukningu í öðrum atvinnugreinum hefur orðið viðsnúningur í atvinnumálum í Vesturbyggð. Þetta hefur einnig gert það að verkum að nokkurskonar vaxtaverkir hafa orðið m.t.t innviða eins og á hafnarsvæðum, á fasteignamarkaði svo dæmi séu nefnd.

Nú er þessi vinna hafin og nefnist verkefnið „Greining á uppbyggingu innviða, aðstöðusköpunar og uppbyggingar þjónustu í Vesturbyggð“. Verkefnið er unnið af verkfræðistofunni EFLU í samstarfi við Vesturbyggð.

Verkefnið var stuttlega kynnt á íbúafundi á Bíldudal þann 19. september. Nú er fyrsta skref verkefnisins að hefjast og mun verða opinn fundur með fyrirtækjum sem þjónusta t.d fiskeldi, ferðaþjónustu og aðrar stærri atvinnugreinar innan Vesturbyggðar.

Fundur fyrir fyrirtæki í fiskeldi og skyldum atvinnugreinum verður haldinn  miðvikudaginn 8. nóvember klukkan 15-16:30 í félagsheimilinu á Patreksfirði.

Fundur fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu og skyldum atvinnugreinum verður haldinn fimmtudaginn 9. nóvember klukkan 17-18:30 í félagsheimilinu á Patreksfirði.

Á fundinum verða nokkra spurningar lagðar fram og verður fundarmönnum skipt í hópa 4-8 manns. Einn hópstjóri verður í hverjum hóp, fulltrúi frá verkfræðistofunni EFLU eða Vesturbyggð, og mun hann leiða umræðuna og rita fundargerð.

DEILA