Á laugardaginn verða Norðfjarðargöng formlega opnuð og mun Jón Gunnarsson starfandi samgönguráðherra, með aðstoð Hreins Halldórssonar vegamálastjóra, klippa á borða.

Athöfnin fer fram við gangamunnan Eskifjarðarmegin. Kaffisamsæti verður að athöfn lokinni í Dalahöllinni, í Fannardal, Norðfirði. Fjarðabyggð verður með ýmsar uppákomur samhliða þessu svo sem sjá má á heimasíðu sveitarfélagsins: www.fjardabyggd.is

Gangahlaup Þróttar og Austra

Íþróttafélögin Þróttur og Austri taka forskot á sæluna og standa í dag fyrir Gangahlaupi Þróttar og Austra, og munu í dag ganga, hlaupa, hlaupahjóla, línuskauta og hjóla gegnum göngin, frá Norðfirði til Eskifjarðar. Reiknað er með það taki tvo klukkutíma að ganga alla leið en göngin eru 8 km löng. Þátttakendur eru hvattir til að mæta í búningum sinna félaga

Göngin

Norðfjarðargöng leysa af hólmi Oddskarðsgöng og erfiðan fjallveg að þeim göngum beggja vegna. Oddskarðsgöng voru byggð á árunum 1972-77 og eru einbreið, 640 m löng og liggja í um 610 metra hæð yfir sjó.

Lengd nýju Norðfjarðarganganna í bergi er 7.566 m, vegskáli er 120 m Eskifjarðarmeginn og 222 m Norðfjarðarmegin eða samtals 342 m.  Heildarlengd ganga með vegskálum er því 7.908 m. Þversnið ganganna er 8,0 m breitt í veghæð. Í göngunum eru 14 útskot, þar af fjögur snúningsútskot. Inni í göngunum eru 4 steypt tæknirými og 2 við hlið vegskála utan ganga. Neyðarrými fyrir um 150 manns verða við hvert tæknirými inni göngunum.  Vegur í gegnum göngin er 6,5 m breiður milli steyptra upphækkaðra axla.

Gangamunni Eskifjarðarmegin er í 15 m hæð yfir sjó rétt innan við gamla Eskifjarðarbæinn. Munninn Norðfjarðarmegin er í 126 m hæð yfir sjó í landi. Gólf í göngum fer mest í 170 m hæð yfir sjó.

Nýir vegir að göngunum Eskifjarðarmegin eru um 2 km og Norðfjarðarmegin um 5,3 km, samtals um 7,3 km. Vegurinn er 8 m breiður með 7 m akbraut. Í tengslum við vegagerð að göngum voru byggðar nýjar brýr annars vegar 44 m löng á Norðfjarðará og 58 m löng á Eskifjarðará.

bryndis@bb.is

DEILA