Fiskeldi er helsta tækifæri til vaxtar í íslenskum sjávarútvegi

Runólfur Geir Benediktsson forstöðumaður Sjávarútvegsteymis Íslandsbanka segir að eitt helsta tækifæri Íslands til vaxtar í sjávarútvegi sé á sviði fiskeldis. „Í Færeyjum og Noregi er fiskeldi orðið jafn umfangsmikið eða stærra en fiskveiðar. Hérlendis telur fiskeldi aðeins um 5% af útflutningsverðmætum fiskveiða“, segir hann í viðtali við Morgunblaðið, ViðskiptaMoggann í tilefni af því að bankinn gaf á dögunum út skýrslu um íslenskan sjávarútveg.

Runólfur Geir bendir á að í fyrra hafi verið metár í íslensku fiskeldi og framleiðslan nam 15 þúsund tonnum. Áætlanir gera ráð fyrir að framleiðslan verði 20 þúsund tonn í ár. Til samanburðar framleiða Færeyingar um 70 þúsund tonn og Norðmenn um 1,4 milljónir tonna.

Fiskeldi er síður en svo óumdeild atvinnugrein og hagsmunaaðilar hafa tekist hart á. Runólfur segir að atvinnuvegurinn sé að fara í gegnum vissa byrjunarörðugleika. „Það er því mikilvægt að ræða hann vel. Að því sögðu er vert að vekja athygli á að sitt sýnist hverjum um helstu atvinnuvegi landsins á borð við stóriðju, landbúnað og ferðaþjónustu.

Nú er stóra spurningin hvað við viljum að gert verði með fiskeldi hérlendis. Öflugustu fiskeldisfyrirtæki landsins eru að nálgast hámark þeirra leyfa sem þeim var úthlutað. Nú verður að taka ákvörðun um hvort það eigi að leyfa þeim að stækka, verða hagkvæmari og skila meiri útflutningsverðmætum“, segir Runólfur Geir.

smari@bb.is

DEILA