Færri keisaraskurðir, minni barnadauði og færri unglingar sem reykja

Árleg skýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um stöðu heilbrigðismála í aðildarríkjum stofnunarinnar, Health at a Glance 2017 er komin út. Í skýrslunni koma fram margvíslegar upplýsingar um heilbrigðismál í aðildarríkjum stofnunarinnar sem eru 35 talsins, auk fleiri landa. Skýrslan skiptistí ellefu kafla sem fjalla um heilbrigðisástand, áhrifaþætti heilbrigðis aðra en læknisfræðilega, aðgengi, gæði, heilbrigðisútgjöld, mannafla, starfsemi heilbrigðisþjónustunnar, lyfjamál og öldrun og langtíma umönnun. Sérstakur kafli er um ástæður ávinnings síðustu áratuga í auknum lífslíkum. Í ritinu er einnig svonefnt mælaborð þar sem löndin eru borin saman við meðaltal OECD út frá nokkrum þáttum.

Íslenskir unglingar reykja miklu minna en unglingar í OECD ríkjunum, 3% 15 ára íslenskra unglinga reyktu að minnsta kosti einu sinni í viku en 12% unglinga í OECD. Almennt hefur dregið úr reykingum og áfengisneyslu meðal 15 ára unglinga. Ísland er þó meðal 13 ríkja þar sem almenn áfengisneysla jókst á tímabilinu 2009 – 2015.

Unglingarnir okkar neyta hlutfallslega meira af ávöxtum og grænmeti en að meðaltali í OECD ríkjum 2013-2014.

Árlegur meðalvöxtur heilbrigðisútgjalda á mann á árunum 2009 til 2016 var 1,4% að meðaltali í ríkjum OECD, en 1% á Íslandi. Á árunum 2003-2009 var árlegur meðalvöxtur heilbrigðisútgjalda á mann að meðaltali 3,6% í ríkjum OECD en 0,4% á Íslandi.

Árið 2015 var fjöldi starfandi lækna á þúsund íbúa 3,8 hér á landi en 3,4 að meðaltali fyrir OECD-ríkin. Á hinum Norðurlöndunum var hlutfallið lægst í Finnlandi (3,2) og hæst í Noregi (4,4). Hlutfall kvenna af starfandi læknum hefur hækkað en er mjög breytilegt eftir löndum eða frá 20% í Japan til 74% í Lettlandi. Hér á landi er hlutfall kvenna af starfandi læknum rúm 37%.

Fjöldi sjúkrahúsarýma á Íslandi var 3,1 á þúsund íbúa árið 2015 en 4,7 að meðaltali fyrir OECD lönd. Fjöldi útskrifta af sjúkrahúsi (legur) var 114 á þúsund íbúa hérlendis árið 2015 en 156 að meðaltali í ríkjum OECD. Meðallegutími á sjúkrahúsum var 6,3 dagar á Íslandi eða svipaður og í Noregi (6,7) og Svíþjóð (5,9) en 7,8 dagar að meðaltali í OECD.

Árið 2015 voru 16 keisaraskurðir framkvæmdir hér á landi á hundrað lifandi fædda og aðeins í Hollandi (15,9) og Finnlandi (15,5) var hlutfallið lægra. Hæst var hlutfallið í Tyrklandi (53) en meðaltal OECD-ríkja var 28.

Hér á landi fjármagnaði hið opinbera 38% af lyfjaútgjöldum í smásölu en heimilin 58% (aðrir 4%) árið 2015. Aðeins í Lettlandi og Póllandi var hlutur heimilanna hærri. Á hinum Norðurlöndunum var hlutfallið 42-51%.

Skýrsluna má nálgast hér.

DEILA