Ekki heimild fyrir knattspyrnuhúsi á Torfnesi

Skipulagsstofnun hafnaði nýju deiluskipulagi á Torfnesi á Ísafirði. Ísafjarðarbær hafði auglýst deiluskipulag á Torfnesi þar sem gert er ráð fyrir knattspyrnuhúsi. Sigurður Jón Hreinsson, formaður skipulags- og mannvirkjanefndar, segir að Skipulagsstofnun hafi ekki getað samþykkt deiliskipulagið á þeim forsendum að ekki væri heimild fyrir svona stóru húsi í aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar. Skipulags- mannvirkjanefnd hefur lagt til við bæjarstjórn að gerð verði óveruleg breyting á aðalskipulagi sem heimili knattspyrnuhús á Torfnesi. Sigurður gerir ráð fyrir að skipulag Torfnessins verði fullbúið fyrir vorið. „Bygging knattspyrnuhúss er ekkert komin á framkvæmdastig svo þetta tefur málið ekkert. Mín skoðun er reyndar að það eigi eftir að klára umræðuna um húsið og hvort það fari best á því við vallarhúsið eða hvort við getum nýtt svæðið með betri hætti með annarri staðsetningu,“ segir Sigurður.

Aðalskipulag Ísafjarðarbæjar er til 2020 og Sigurður segir það verkefni bæjarstjórnar á næsta kjörtímabili að vinna nýtt aðalskipulag frá grunni.

smari@bb.is

DEILA