Dagur íslenskrar tungu í MÍ

Baptiste Griffaton flytur ljóð á frönsku og Hilda Sigurðardóttir íslenska þýðingu á því. Mynd: Emil Emilsson

Síðastliðinn fimmtudag var dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í Menntaskólanum á Ísafirði en 16. nóvember er jafnframt fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Nemendur skólans voru með sérstaka hátíðardagskrá á sal skólans í tilefni dagsins. Þar var boðið uppá kynningar á skáldum, upplestur og söng. Lesið var upp úr bókunum Ástin, drekinn og dauðinn og Auður eftir Vilborgu Davíðsdóttur og bókinni Saga Ástu eftir Jón Kalman Stefánsson. Þá voru nemendur einnig með kynningar á báðum skáldunum.

Kolbeinn Hrólfsson les upp úr sögunni Saga Ástu eftir Jón Kalman Stefánsson. Mynd: Emil Emilsson
Baptiste Griffaton flytur ljóð á frönsku og Hilda Sigurðardóttir íslenska þýðingu á því. Mynd: Emil Emilsson

Ljóðið Ferðalok eftir Jónas Hallgrímsson var einnig flutt á íslensku og frönsku. Hilda Sigurðardóttir flutti það á íslensku en Baptiste Griffaton, franskur nemandi skólans, sá um flutning þess á frönsku. Hann flutti einnig franskt ljóð en einnig var íslensk þýðing á ljóðinu flutt. Dagskránni lauk með fjöldasöng á laginu Á íslensku má alltaf finna svar en þar sameinast góður texti Þórarins Eldjárns við þekkt lag Atla Heimis Sveinssonar.

bryndis@bb.is

DEILA