Bætur sóttar án kostnaðar

Það hefur færst í vöxt að lögmenn bjóði fram þjónustu sína við að sækja staðlaðar skaðabætur vegna seinkunar á millilandaflugi eða aflýsingar á flugi. Þóknun fyrir þjónustuna er yfirleitt hlutfall af þeim skaðabótum sem neytandinn á rétt á. Að gefnu tilefni vilja Neytendasamtökin benda á að neytendur geta sótt slíkar bætur sér að kostnaðarlausu.

Neytendasamtökin aðstoða félagsmenn við að leita réttar síns og sjá um milligöngu þegar þess er þörf. Slík þjónusta er innifalin í árgjaldi samtakanna auk margþættrar annarrar þjónustu.

Evrópska neytendaaðstoðin (ENA) aðstoðar neytendur þvert yfir landamæri. Lendi neytandi, búsettur á Íslandi, í því að flugi hans er seinkað eða aflýst af völdum flugfélags í Evrópu getur hann leitað til ENA sér að kostnaðarlausu. Það sama gildir um neytendur búsetta innan Evrópusambandsins sem vilja sækja rétt sinn gagnvart flugfélagi sem starfar á Íslandi.

Samgöngustofa tekur við kvörtunum frá flugfarþegum og leysir úr ágreiningi svo sem vegna seinkana í flugi. Það er neytendum að kostnaðarlausu að senda mál til Samgöngustofu.

Neytendasamtökin ítreka að neytendur ættu alltaf að byrja á því að sækja rétt sinn til seljanda. Oft ganga þau samskipti snuðrulaust fyrir sig og neytandinn fær úrbætur með lítilli fyrirhöfn. Gangi slíkt ekki er öllum heimilt að leita til Neytendasamtakanna og fá ráðleggingar.

smari@bb.is

DEILA