50 milljónir til úthlutunar

Aldrei fór ég suður tónlistarhátiðin er dæmi um menningarverkefni sem hefur notið góðs af uppbyggingarsjóðnum.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í uppbyggingarsjóð Vestfjarða. Úr sjóðnum eru veittir styrkir til atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna, menningarverkefna og stofn- og rekstrarstyrkir til menningarstofnana. Til úthlutunar árið 2018 eru um 50 milljónir króna og er gert ráð fyrir einni úthlutun. Tekið hefur verið í notkun nýtt rafrænt umsóknarkerfi sem nú er að mestu samræmt fyrir landið allt. Umsóknarfrestur er til miðnættis 21. nóvember.

Við ákvörðun um úthlutun verður sérstaklega litið til verkefna sem uppfylla eitt eða fleiri eftirfarandi skilyrða:

  • Verkefni sem efla nýsköpun og atvinnuþróun á svæðinu
  • Verkefni sem stuðla að vöru- og gæðaþróun í starfandi fyrirtækjum
  • Verkefni sem mynda atvinnutækifæri og auka fagmennsku á sviði lista og menningar
  • Verkefni sem efla samstarf, ýmist á milli svæða, listgreina, fyrirtækja eða rannsóknaraðila
  • Verkefni sem styðja við uppbyggingu og eflingu menningartengdrar ferðaþjónustu
  • Verkefni sem skapa störf fyrir háskólamenntaðar konur og ungt fólk á svæðinu
  • Atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni sem eru gjaldeyrisskapandi
  • Atvinnuþróunarverkefni sem eru á sviði líftækni

Uppbyggingarsjóður er hluti af sóknaráætlun Vestfjarða og í umsjón Fjórðungssambands Vestfirðinga. Hann veitir styrki til menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar. Uppbyggingarsjóður varð til með samningi ríkis og Fjórðungssambands Vestfirðinga um Sóknaráætlun Vestfjarða 2015-2019 sem undirritaður var 10. febrúar 2015.

DEILA