Vonar að ríkið hafi ekki greitt mikið fyrir skýrsluna

Súðavíkurhreppur verður neyddur til sameiningar verði tillögurnar að veruleika. Mynd: Mats Wibe Lund.

„Þetta eru í besta falli hugmyndir á blaði og ég sé ekki hvernig þessi nálgun á mikilvægt mál á að gagnast okkur í framtíðinni,“ segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, um skýrslu verkefnastjórnar um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga. Í skýrslunni er lagt til að hækka lág­marks­fjölda íbúa í skref­um þannig að ekki verði færri en 1.000 íbú­ar í hverju sveit­ar­fé­lagi í árs­byrj­un 2026 og að sam­ein­ing­ar vegna þess verði ekki born­ar und­ir íbúa í at­kvæðagreiðslu.

Verk­efn­is­stjórn­in set­ur fram tólf til­lög­ur í skýrsl­unni. Ein þetta er að hækka lág­marks­fjölda íbúa í þrep­um. Í árs­byrj­un 2020 skuli lág­marks­í­búa­fjöldi vera 250 íbú­ar, 500 í árs­byrj­un 2022 og 1.000 árið 2026.

Í Súðavíkurhreppi búa um 200 manns og verði tillögurnar að veruleika mun sveitarfélagið verða þvingað til sameiningar á næstu tveimur árum.

Pétur G. Markan.

Pétur segir að hann skilji ekki þá nálgun að setja öll lítil sveitarfélög undir sama hatt, óháð því hvernig þau standa. „Súðavíkurhreppur er frábært dæmi um lítið sveitarfélag sem stendur á traustum fótum rekstrarlega og veitir góða þjónustu. Við rekum góðan grunnskóla, leikskóla, tónlistarskóla og veitum félagslega þjónustu í samvinnu við Bolungarvíkurkaupstað. Ég vona hreinlega að ríkið hafi ekki greitt of mikið fyrir þessa nefndarvinnu því skýrslan er gagnslaust plagg, því miður,“ segir Pétur.

Þrátt fyrir að vera andsnúinn tillögum sem koma fram í skýrslunni er Pétur ekki mótfallinn sameiningum sveitarfélaga. „Það hefur komið fram hjá mér áður að ég sé fyrir að einhvern tímann í framtíðinni verði eitt sveitarfélag við Djúp. En sú ákvarðanataka þarf að byggja á betri vinnu en þessari skýrslu. Það er til að mynda frumskilyrði að innviðir í sameinuðu sveitarfélagi séu í lagi. Ég nefni göng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar, það sé hver maður að það gengur ekki í sameinuðu sveitarfélagi að íbúar þurfi að keyra um hættulegasta veg landsins til að sækja grunnþjónustu.“

DEILA