Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra hefur undirritað reglugerð um breytingu á reglugerð um hollustuhætti um heimild til að koma með hunda og ketti á veitingastaði. Reglugerðin tekur gildi á laugardaginn. Í reglugerðinni er m.a. kveðið á um að eigendum eða rekstraraðilum veitingastaða sé heimilt að leyfa gestum að koma með hunda og ketti inn á veitingastaði, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Heimildin gildir hvorki um veitingastaði né mötuneyti þar sem mæting er ekki valfrjáls og á stöðum þar sem fólki er gert að sækja þjónustu. Þá gildir heimildin ekki sé aðstaða veitingastaðar að einhverju leyti sameiginleg með annarri starfsemi eða á stað þar sem óheimilt er að hleypa gæludýrum inn á.

Gert er ráð fyrir að þeir rekstraraðilar veitingastaða sem nýti sér þessa heimild tilkynni það til hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar og auglýsi það jafnframt á áberandi hátt á húsnæðinu sjálfu utan dyra sem innan og á vef hlutaðeigandi fyrirtækis. Sú skylda mun einnig hvíla á rekstraraðilum að tryggja að hundar og kettir séu einungis í veitingasölum veitingastaða og ekki þar sem matvæli eru tilreidd, meðhöndluð eða geymd.

smari@bb.is

DEILA