Verulega ósátt við Pál Óskar

Vagna Sólveig Vagnsdóttir

Vagna Sólveig Vagnsdóttir, trélistakona á Þingeyri, er ekki allskostar sátt við tónlistarmanninn Pál Óskar Hjálmtýsson. Málið snýst um að fyrr í sumar tilkynnti Páll Óskar að hann ætlaði að dreifa nýjustu breiðskífu sinni persónulega og í byrjun júlí sagði hann aðdáendum sínum að ef þeir pöntuðu plötuna fyrir 14. júlí þá kæmi hann með hana upp að dyrum sjálfur og skipti búseta kaupenda engu máli. Rætt er við Vögnu Sólveigu á Vísi í dag og greinir hún frá svohljóðandi tölvupósti frá Páli Óskari:

„Ég ætlaði að vera svo kúl og dreifa plötunni sjálfur til allra þeirra sem forpöntuðu hana og hlakkaði mikið til að hitta alla.  En sú vinna krefst meiri andlegrar og líkamlegrar orku en mig óraði fyrir og ég verð einfaldlega að játa mig sigraðan. Ég get ekki dreift fleiri plötum. Ég vona að þú getir fyrirgefið mér.”

Vagna Sólveig er verulega sár út í goðið, sem hún hefur haft í hávegum um árabil. „Hann er að plata fólk til að kaupa plötu sem hann er að gefa út. Sagðist ætla að koma og afhenda hana og margir keyptu plötuna bara vegna þess. Nú sendir hann tölvupóst og segist ætla að senda hana í pósti. Hvað kallast svona sölumennska?“ spyr hún.

Hún var búin að undirbúa komu Páls Óskar og ætlaði að færa honum að gjöf útskorna rjúpu, en ekkert verður úr því. „Hann fær rjúpuna ekki úr þessu. Ég gef ekki fólki sem svíkur mig,“ segir Vagna Sólvegi í samtali við blaðamann Vísis.

smari@bb.is

DEILA