Veiðimenn sýni hófsemi

Rjúpnaveiðar hefjast á morgun og ljóst að margir veiðimenn hafa fengið sig lausa úr vinnu til að halda á fjöll. Í ár er heimilt að veiða 12 daga líkt og í fyrra. Það eru umtalsvert færri dagar en rjúpnaveiðimenn áttu að venjast hér áður fyrr þegar veiðitímabilið stóð í 69 daga. Umhverfisstofnun hvetur veiðimenn til sýna hófsemi og veiða ekki fleiri rjúpur en þörf er á og minnir stofnunin á að sölubann er í gildi á rjúpum og rjúpnaafurðum.

Náttúrufræðistofnun Íslands metur að stofninn þoli veiðar á 57.000 rjúpum og er það aukning frá fyrra ári. Hófsemissjónarmið auka líkurnar á að hægt verði að stunda sjálfbærar rjúpnaveiðar um ókomna tíð. Það skiptir því máli að umgangast þessa náttúruauðlind af virðingu og standa um leið vörð um þau forréttindi sem felast í að geta stundað skotveiðar í íslenskri náttúru. Veiðimenn eru hvattir til góðrar umgengni um landið.

smari@bb.is

DEILA