Vegagerðin fái framkvæmdaleyfi strax

Kristinn Bergsveinsson

Tilefni þess að ég fer einu sinni enn að skipta mér af hlutum sem koma mér ekki við að mati margra hér í sveit eru ummæli sveitarstjóra Reykhólahrepps á fundi á Ísafirði um „ótta hennar um málaferli“. Einnig útgáfa Reykhjólahrepps á riti sem nefnist Aðalskipulagsbreyting Vestfjarðavegar milli Bjarkalundar og Skálaness. Í riti þessu leggur hreppsnefndin fram tvo valkosti. D-1 veglínu með jarðgöngum undir Hjallaháls og hinn kosturinn er Þ-H veglína í gegnum hinn heilaga Teigsskóg. Tveir af fimm nefndarmönnum hafa þegar sagt að þeir eru andvígir Þ-H veglínu í gegnum Teigsskóg og hér vita það allir sem vilja að nefndin er margklofin og veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga. Því gerist ég fífldjarfur og sendi henni eftirfarandi línur í þeirri von að nefndin fari að ná áttum og hafi fólk í fyrirrúmi.

Til sveitarstjórnar Reykhólahrepps:

Breyting á aðalskipulagi Reykjólahrepps felist í því að veglína B færist og verði veglína Þ-H eins og Vegagerðin leggur til í niðurstöðu umhverfismats í nóvember 2016. „Leið Þ-H er besti kosturinn varðandi umferðaröryggi og umhverfisáhrif“, segir í rökum Vegagerðarinnar fyrir Þ-H leið eftir að fimm leiðir hafa farið í umhverfismat.

Afleggjarar að bæjunum Djúpadal, Gufudal og Fremri-Gufudal verði lagðir bundnu slitlagi og hannaðir fyrir 90 km hraða.

Hugmyndir um B-2 leið og jarðgöng eru og hafa alltaf verið rökleysa. Peningaloforð nú eru einskis verð kosningaloforð. Kostnaður yrði líklega 5-6 milljörðum meiri en Þ-H leið. Öll jarðgöng á Íslandi fara 20-30 prósent fram úr áætluðum kostnaði.

Ég skora á hreppsnefndina að sýna nú kjark og gefa Vegagerðinni strax framkvæmdaleyfi eftir veglínu Þ-H svo útboð geti hafist. Annað er kjarkleysi fyrir stofnanaofbeldi.

Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal

DEILA