Varmadælur til að lækka orkukostnað

Bæjarstjórn Bolungarvíkurkaupstaðar hefur samþykkt að fela bæjarstjóra að kanna kostnað við að láta gera úttekt á arðsemi og kostnaði við að setja upp varmadælur við helstu stofnanir sveitarfélagsins í þeim tilgangi að draga úr orkunotkun og kostnaði sveitarfélagsins.

Varmadælur eru mjög víða um heim notaðar til upphitunar og fara vinsældir þeirra vaxandi. Loftvarmadælur eru þar lang útbreiddastar og eru þá notaðar til upphitunar með heitu lofti á vetrum og kælingar með svölu lofti á sumrin. Loftvarmadælur nýta lofthita sem varmagjafa og eru slíkar varmadælur mjög algengar í Skandinavíu og þá sérstaklega í Svíþjóð og Noregi. Eru þær bæði notaðar í sumarhúsum og íbúðarhúsum. Á Íslandi hafa loftvarmadælur einna helst verið notaðar í sumarhúsum og í dreifbýli á köldum svæðum.

Í sem stystu máli virkar varmadæla þannig að varmaorka er flutt frá lághita yfir í háhita. Þetta kann að virðast öfugsnúið enda í andstöðu við náttúrulögmálin. Það sem gerir þetta kleift er utanaðkomandi afl í ferlinu sem notað er til að „knýja varmadæluna sjálfa”. Í sjálfu sér virkar varmadæla ekki ósvipað ísskápi eða loftkælingu, nema hvað heiti hluti kerfisins er það sem „skiptir máli” í stað þess kalda eins og ef um ísskáp væri að ræða.

smari@bb.is

DEILA