Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu til forseta Íslands að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra verði settur til að fara með mál er varðar skipun í embætti héraðsdómara.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hafði óskað eftir því að Guðlaugur Þór tæki verkefnið að sér, sem hann samþykkti, en þetta varðar setningu formanns í dómnefnd sem á að meta hæfi umsækjenda. Dómsmálaráðuneytinu barst í síðasta mánuði 41 umsókn um 8 stöður héraðsdómara sem auglýstar voru lausar til umsóknar 1. september. Staða dómara við Héraðsdóm Vestfjarða var eitt af embættunum sem var auglýst.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra ákvað að víkja sæti í málinu vegna umsóknar Ástráðs Haraldssonar hæstaréttarlögmanns um eitt af embættunum. Ástráður stefndi ríkinu vegna umsóknar hans um embætti dómara við Landsrétt. Dómsmálaráðherra taldi að fyrir hendi væru aðstæður sem væru til þess fallnar að umsækjendur um héraðsdómaraembættin drægju óhlutdrægni hennar í efa.
Umsækjendur um stöðu dómara við Héraðsdóm Vestfjarða:
- Arnaldur Hjartarson – aðstoðarmaður dómara við EFTA-dómstólinn
- Bergþóra Ingólfsdóttir – hæstaréttarlögmaður
- Brynjólfur Hjartarson – lögfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu
- Guðfinnur Stefánsson – aðstoðarmaður héraðsdómara
- Guðmundur Örn Guðmundsson – héraðsdómslögmaður
- Hákon Þorsteinsson – aðstoðarmaður héraðsdómara
- Hrannar Hafberg – ráðgjafi Fiskistofu
- Indriði Þorkelsson – hæstaréttarlögmaður
- Ólafur Freyr Frímannsson – héraðsdómslögmaður
- Ólafur Karl Eyjólfsson – héraðsdómslögmaður
- Sigurður Jónsson – hæstaréttarlögmaður
- Sólveig Ingadóttir – aðstoðarmaður héraðsdómara
- Unnsteinn Örn Elvarsson – héraðsdómslögmaður
- Valborg Steingrímsdóttir – aðstoðarmaður héraðsdómara
- Þór Hauksson Reykdal – forstöðumaður hjá Vinnumálastofnun
- Þórhildur Líndal – aðstoðarmaður héraðsdómara
- Þórir Örn Árnason – héraðsdómslögmaður
smari@bb.is