Það stefnir í frekar tíðindalítið veður í dag, suðvestlæga átt og dálitla vætu S- og V-lands, en úrkomulítið NA-til. Síðdegis fara skil yfir landið frá vestri til austurs og eykst þá úrkoman V-lands um tíma en skilin munu líklega ekki færa neina úrkomu að ráði á NA- og A-land. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðins.
Í kvöld snýst í norðlæga átt og kólnar nokkuð hratt með henni, fyrst um landið V-vert. Það má búast við slydduéljum á Vestfjörðum fram eftir nóttu, en éljum NA- og A-til á morgun. Norðanáttin verður einna hvössust á SA- og A-landi í fyrramálið þar sem hviður við fjöll geta auðveldlega farið yfir 30 m/s, einkum suður af Vatnajökli og á sunnanverðum Austfjörðum. Á sama tíma léttir til fyrir sunnan og vestan og eru ágætis líkur á björtu veðri þar á morgun. Það lægir síðan og styttir upp á landinu um og eftir hádegi.
Tíðin er heldur rysjótt þessa dagana en annað kvöld er útlit fyrir vaxandi suðlæga átt og rigningu V-lands eftir nokkuð fallegan og svalan dag á þeim slóðum.