Spánarsnigill fannst á Patreksfirði fyrir skemmstu og var komið með hann til greiningar á Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík. Náttúrustofan hvetur fólk á Patreksfirði til að svipast um eftir stórum sniglum líkum þeim sem sést á meðfylgjandi mynd. Ef grunur vaknar um spánarsnigil er fólki bent á að hafa samband við Náttúrustofuna. Spánarsnigill hefur áður fundist á Vestfjörðum, en sá var í Hnífsdal.

Spánarsnigill er ágeng tegund og dreifist nær eingöngu af mannavöldum, einkum sem egg eða ungviði með plöntum og jarðvegi. Hann er orðinn geysialgengur í nágrannalöndunum og er þar orðinn til mikils skaða í görðum og garðrækt. Snigillinn hefur því átt greiða leið til Íslands með innfluttum plöntum og jarðvegi í blómapottum.

Spánarsnigill er að öllu jöfnu auðþekktur frá öðrum sniglum hérlendum, þar sem hann er einlitur rauður þó rauði liturinn geti verið breytilegur. Fullvaxinn er hann tröllvaxinn, miklu stærri en aðrir sniglar af Arion ættkvíslinni. Reyndar hefur þróunin orðið sú að spánarsniglar sem fundist hafa á seinni árum eru mun smávaxnari en þeir sem fundust fyrstu árin og er það aðlögun að stuttu sumri hér á norðurslóðum.

Spánarsnigill á að líkindum eftir að reynast eitt mesta meindýr sem hefur borist til landsins. Mikilvægt er að sporna gegn landnámi spánarsnigils eins og frekast er unnt og skal því tortíma þeim sniglum sem ekki gefst kostur á að skila til Náttúrustofunnar.

smari@bb.is

DEILA