Spáir meiri verðbólgu

Hag­fræðideild Lands­bank­ans spá­ir því í Hag­sjá sinni að vísi­tala neyslu­verðs, sem birt verður af Hag­stofu Íslands þann 27. októ­ber, muni hækka um 0,20% á milli mánaða en ef sú spá geng­ur eft­ir mun ár­sverðbólg­an hækka úr 1,4% í 1,6%.

Í Hag­sjánni kem­ur fram að vísi­tala neyslu­verðs hafi hækkkað um 0,14% á milli mánaða í sept­em­ber en það var minni hækk­un en bú­ist var við þegar Hag­sjá­in spáiði 0,28% hækk­un. Sagt er að mun­ur­inn skýrist fyrst og fremst að því að mat­ur og drykkja­vara lækkaði tölu­vert mikið eða um 1,3% á milli mánaað en sú lækk­un var óvænt í ljósi þeirr­ar geng­is­veik­ing­ar sem orðið hafði síðustu mánuði á und­an en gera má ráð fyr­ir að til­koma Costco hafi þar haft tölu­verð áhrif.

Töluverð óvissa ríkir um verðbólguþróunina um þessar mundir að því er segir í Hagsjánni og þar kemur fram að innkoma Costco inn á íslenskan neytendamarkað hefur nú þegar haft töluvert mikil áhrif á verðlag ýmissa vara en óljóst er að hversu miklu leyti þau eru komin fram og hversu mikil þau verði litið fram á veginn. Í þessu sambandi er bent á að innkoma Costco hefur leitt til þess að margir aðrir smásalar hafa náð betri samningum við sína birgja. Þessu til viðbótar eru vísbendingar um að gengisbreytingar krónunnar séu ekki að skila sér með sama hætti inn í verðlag eins og verið hefur raunin á síðustu árum. Þannig virðast kaupmenn tregari til að hækka verð hjá sér í kjölfar gengisveikingar. Þar kann að skipta máli að verðbólguvæntingar eru nú um stundir lægri en þær hafa áður verið hér á landi.

smari@bb.is

DEILA