Sægur upplýsinga á einum stað

Skemmtiferðaskip í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Ágúst Atlason.

Mælaborð ferðaþjónustunnar var formlega kynnt til sögunnar fyrir helgi. Mælaborðið er ný vefsíða þar sem tölulegar upplýsingar um atvinnugreinina eru birtar með myndrænum hætti. Þetta er í fyrsta skipti sem þessar upplýsingar eru aðgengilegar á einum og sama stað. Meðal þess sem mælaborðið sýnir er fjöldi ferðamanna, framboð gistirýmis, nýting hótelherbergja, dreifing, nýting og tekjur Airbnb gistingar, komur og dreifing skemmtiferðaskipa, fjöldi starfsmanna í atvinnugreininni, gjaldeyristekjur og fjöldi bílaleigubíla. Sérstaka athygli vekur að hægt er að skoða heilmikið af þessum upplýsingum eftir landshlutunum. Sem dæmi má nefna að fá má margvíslegar upplýsingar um umfang Airbnb útleigu í hverjum landshluta, fjölda hótela og hótelherbergja, gistinýtingu og tekjur. Þá er í fyrsta skipti hægt að sjá yfirlit um komur skemmtiferðaskipta í hafnir á landsbyggðinni, fjölda skipa og fjölda farþega.

Upplýsingar mælaborðsins eru byggðar á gögnum frá opinberum stofnunum og rannsóknaraðilum. Tölurnar eru uppfærðar jafnharðan og nýjar berast og því eru upplýsingarnar eins ferskar og hugsast getur. Í flestum tilfellum sýna gögnin þróunina nokkur ár aftur í tímann.

Þær upplýsingar sem birtast í mælaborðinu í þessari fyrstu útgáfu eru aðeins hluti þess sem áformað er að sýna. Gert er ráð fyrir að allt að 100 upplýsingagrunnar eigi eftir að bætast við. Mælaborðið verður í stöðugri þróun og viðræður standa yfir við fjölmargar stofnanir um birtingu á fleiri gögnum sem varða ferðaþjónustuna og þróun hennar. Meðal þeirra sem leggja mælaborðinu til gögn núna eru Hagstofan, Ferðamálastofa, Airdna og Samsýn.

Mælaborð ferðaþjónustunnar er unnið á vegum Stjórnstöðvar ferðamála í samstarfi við ráðgjafarfyrirtækið Deloitte og er fjármagnað af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Markmiðið með mælaborði ferðaþjónustunnar er að mæta brýnni þörf fyrir aðgengilegar og áreiðanlegar upplýsingar á einum stað um vöxt og þróun þessarar stærstu atvinnugreinar landsins. Einstaklingar, fyrirtæki, fjárfestar, sveitarfélög, ríkisvaldið og fleiri aðilar hafa lengi kallað eftir slíkum gögnum til greiningar og ákvarðanatöku í ferðaþjónustunni. Til viðbótar við þær upplýsingar sem birtast í mælaborðinu verður hægt að fá aðgengi að undirliggjandi gögnum til frekari rannsókna.

smari@bb.is

DEILA