Óskiljanlegt að Teigsskógur hafi ekki verið tekinn eignarnámi

Kjartan á verönd kaffihússins á Saurbæ sem þau hjónin reka.

Það er óskiljanlegt að Teigsskógur skuli ekki hafa verið tekinn eignarnámi fyrir löngu. Þetta segir Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Kristján Má Unnarsson á Stöð 2. Kjartan og eiginkona hans, Sigríður Snævarr eiga jörðina Saurbæ á Rauðasandi og hafa staðið fyrir myndarlegri uppbyggingu þar síðustu 18 árin. Þau þekkja því vel til úr sér genginna vega í Gufudalssveit og Kjartan er ekki vafa um að fylgja eigi tillögu Vegagerðarinnar um veg um Teigsskóg. Hann vill að Teigsskógur verði tekinn eignarnámi.

„Mér finnst það eiginlega óskiljanlegt, miðað við það hvað ég hef sjálfur kynnst, – ég átti land einu sinni nálægt Reykjavík, – það var alveg hiklaust tekið eignarnámi. Það var ekkert verið neitt að velta því fyrir sér að gera það. Og ég hef aldrei skilið það hvernig í ósköpunum stendur á því, – þó að ég sé nú hlynntur einkaeignarétti og réttindum einstaklinganna að öllu leyti, – að það sé látið standa svona hressilega í veginum fyrir eðlilegum og sjálfsögðum samgöngubótum, – mál sem ég tel að hefði átt að leysa fyrir löngu síðan, annaðhvort með eignarnámi eða bara samningum við landeigendur,“ segir Kjartan.

smari@bb.is

DEILA