Norðvesturkjördæmi á barmi þess að missa þingmann

Misvægi atkvæða er að aukast og er mest milli Norðvesturs- og Suðvesturkjördæmis. Við endurskoðun á kosningalögum árið 2000 var kjördæmum fækkað úr átta í sex og jafnframt var misvægi atkvæða sett mörk í stjórnarskrá þannig að vægi atkvæða í einu kjördæmi megi ekki vera tvöfalt meira en í öðru kjördæmi. Í fréttaskýringu RÚV kemur fram að frá því 2000 hafa tveir þingmenn færst úr Norðvesturkjördæmi í Suðvesturkjördæmi, fyrst í kosningunum 2003 og svo árið 2009.

Í kosningunum á laugardag voru 2.690 kjósendur að baki hverju þingsæti í Norðvesturkjördæmi, samanborið við 5.346 í Suðvesturkjördæmi. Hlutfallið er 199% og á barmi þess að fara yfir stjórnarskrárbundin mörk, sem eru 200%.

Helstu rökin fyrir meira vægi atkvæða í dreifðair byggðum er að vega upp á móti valdi þéttbýlis og valdamiðstöðva og þetta er fyrirkomulag sem þekkist í nágrannalöndunum en Ísland hefur þó gengið lengra í þessa átt en önnur lönd.

Jöfnunarmenn eiga að tryggja að þingstyrkur flokkanna sé í samræmi við atkvæðafjölda en þeir eru ekki nógu margir, eða níu. Í kosningunum á laugardag stingur í augun að Framsóknarflokkurinn fékk einum fleiri þingmann en Samfylkingin þrátt fyrir að Framóknarflokkurinn hafi fengið 10,7 prósent á landsvísu en Samfylkingin 12,1 prósent. Fleir jöfnunarmenn hefðu fært einn þingmann frá Framsókn til Samfylkingar. Að öðru leyti er þingstyrkur flokkanna í samræmi við fylgi.

DEILA