Mótvægisaðgerðir gegn mögulegri erfðablöndun

Einar K. Guðfinnsson.

Hér á þessum vettvangi birtist athyglisverð frétt um að „eftirlitsmenn Fiskistofu kanni nú hvort eldislaxa sé að finna í ám nærri sjókvíaeldisstöðvum.“ Ennfremur segir í fréttinni: „Við rannsóknina er notaður dróni og svo verður ádráttarveiði hugsanlega notuð til að ná til fiska. Ef laxar veiðast sem hafa útlitseinkenni eldisfiska verða þeir teknir og rannsakaðir nánar. Laxar sem ekki bera nein merki eldisfiska verður sleppt aftur.“

Þessi frétt beinir athyglinni að því að unnt er að beita fjölþættum mótvægisaðgerðum til þess að fyrirbyggja að eldislax úr kvíum gangi upp í laxveiðiár til hrygningar. Þessar aðferðir eru þekktar og  er beitt til að mynda með virkum hætti í Noregi. Á nýlegum fundi á vegum Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytisins, sagði fulltrúi Hafrannsóknastofnunar þar í landi frá því að árangurinn væri mjög góður af slíkum mótvægisaðgerðum.

Fiskeldisfyrirtækin hafa sett fram tillögur um mótvægisaðgerðir

Nú vill svo til að íslensku fiskeldisfyrirtækin hafa sett fram tillögur um slíkar mótvægisaðgerðir. Koma þær til viðbótar hugmyndum sem nú er verið að ræða um eldisaðferðir sem hafa það að markmiði að draga úr hættu á að fiskur sleppi úr laxeldiskvíum og munu augljóslega skila þeim árangri eins og sýna má fram á.

Hættan á erfðablöndun er staðbundin

Þessar aðgerðir eru þeim mun áhrifameiri og einfaldari, þar sem nú hefur verið sýnt fram á að möguleg erfðablöndun vegna laxeldis er staðbundnari en margir töldu áður. Áhættumat Hafrannóknastofnunarinnar sýnir þetta svart á hvítu og að viðfangsefnið snýr að ánum í Ísafjarðrdjúpi ( Laugardalsá, Langadals og Hvannadals á) auk Breiðdalsár á Austfjörðum.

Margvíslegar mótvægisaðgerðir

Mótvægisaðgerðirnar geta verið af margvíslegum toga. Hér er stuðst við tillögur Háafells hf í Hnífsdal og má nefna eftirfarandi:

  1. Notkun norska staðalsins NS 9415 við kvíar. Þetta er nú þegar staðan varðandi allt laxeldi hér á landi. Þessi búnaður hefur ma skilað því að sleppingar í Noregi drógust saman um 85% á sama tíma og framleiðslan jókst um helming.
  2. Reynsla erlendis sýnir að 9% af strokulaxi endurheimtast við veiðar í sjó. Þessum aðferðum er beitt í Noregi, en umdeilt er um gildi þessarar aðgerðar.
  3. Megináhersla verði lögð á að hindra að eldislax gangi í veiðiár og fjarlægja slíkan lax sem þangað gengur. Þetta má gera með margvíslegum hætti. Til er háþróaður myndavélabúnaður sem framleiddur er hér á landi og komið er fyrir við árósa eða fiskistiga og getur numið með öruggum hætti hvort um er að ræða eldisfisk eða villtan fisk. Eldisfiskinn sem þannig er numinn er auðvelt að fjarlægja úr ánum,
  4. Þekkt er sú aðferð að setja gildrur í fiskistiga eða að þvergirða ána og hindra þannig og flokka villtan fisk frá eldislaxi og hleypa villta fiskinum upp í ána. Þessi aðferð er alþekkt í Noregi og hefur skilað miklum og góðum árangri.
  5. Í Noregi er byrjað að fjarlægja eldislax úr ám ( veiðivötnum) í nágrenni við þann stað sem slsysasleppingar eiga sér stað. Þessari aðferð er mjög auðvelt að beita í ánum í Djúpinu og er samkynja því sem Fiskistofa er nú að framkvæma í ám hér á Vestfjörðum og fréttin í BB.is greinir frá.
  6. Tryggja þarf að í lok veiðitímabils á villtum laxi sé hæfilegur fjöldi fiska í hrygningarstofnunum í laxveiðiánum í Ísfjarðardjúpi. Því stærri sem laxastofninn er því betur ver stofninn sig gegn mögulegri ágengni strokulaxa.

Sameiginlegir hagsmunir

Þetta eru nokkur dæmi um beinar mótvægisaðgerðir. Mikilvægt er að eiga gott samstarf við veiðiréttareigendur um slíkar aðgerðir og engin ástæða til að ætla nokkuð annað en að það muni takast. Allir aðilar hafa sömu hagmunina sem er að standa vörð um laxveiðarnar, jafnframt því að byggja upp öfluga atvinnustarfsemi á borð við laxeldi, sem mun í bráð og lengd gagnast öllum.

Einar K. Guðfinnsson,

formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva.

DEILA