Miklar breytingar á þingmannasveitinni

.

Þingmannasveit Norðesturkjördæmis tók miklum breytingum í kosningunum á laugardag. Tveir þingmenn misstu sæti sitt, Píratinn Eva Pandora Baldursdóttir og Teitur Björn Einarsson úr Sjálfstæðisflokki. Bæði þingsætin fóru til Miðflokks Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Teitur Björn var inni í fyrstu tölum og þeim næstu en þegar líða tók á nóttina var ljóst að hann átti við ramman reip að draga. Eva Pandora var ekki inni þegar tölur tóku að berast úr kjördæminu en undir morgun sýndu útreikningar að hún yrði jöfnunarþingmaður kjördæmisins. Þegar síðustu tölur komu úr Borgarnesinu datt hún út og jöfnunarþingmaður Pírata færðist til Reykjavíkurkjördæmis suður. Í stað Evu Pandoru var jöfnunarþingmaður Norðvesturkjördæmis Sigurður Páll Jónsson, annar maður á lista Miðflokksins.

Nýir þingmenn kjördæmisins eru Bergþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson úr Miðflokki og Ásmundur Einar Daðason og Halla Signý Kristjánsdóttir Framsóknarflokki. Ásmundur Einar er að koma aftur inn sem þingmaður í kjördæminu en hann sat á þingi frá 2009 til 2013 fyrir Vinstri græn og síðar Framsóknarflokk.

Kosningakerfið með sínum kostum og kynjum gerir það að verkum að Miðflokkurinn sem hlaut 14,2 prósent atkvæð fékk tvo menn kjörna en Vinstri græn sem fengu 17,8 prósent fengu einn þingmann kjörinn. Þetta atvikast vegna þess að annar maður Miðflokksins kemur inn sem landskjörinn jöfnunarmaður.

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði 5 prósentustigum frá því í kosningunum í fyrra. Fékk 29,5 prósent 2016 en 24,5 nú. Píratar töpuðu einnig talsverðu fylgi, fóru úr 10,9 prósentum í 6,8 prósent. Fylgi VG hélst í stað, var 18,1 prósent fyrir ári en 17,8 prósent í kosningunum á laugardaginn. Framsóknarflokkurinn tapaði fylgi en flokkurinn fékk 20,8 prósent í kosningunum í fyrra en 18,4 prósent nú. Samfylkingin bætti duglega við sig, fóru úr 6,3 prósentum í 9,8 prósent.

Viðreisn tapaði fylgi í Norðvesturkjördæmi og fór fylgið úr 6,2 prósent í 2,5 prósent og Björt framtíð fékk einnig minna fylgi en flokkurinn fékk 3,5 prósent fyrir ári en 0,8 prósent nú. Flokkur fólksins fékk 5,3 prósent og hækkaði um 2,8 prósentustig milli kosninga.

Þrír síðastnefndu flokkarnir náðu ekki manni inn á þing.

 

Þingmenn Norðvesturkjördæmis:

Haraldur Benediktsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Sjálfstæðisflokki Ásmundur Einar Daðason og Halla Signý Kristjánsdóttir, Framsóknarflokki
Berþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson, Miðflokki
Lilja Rafney Magnúsdóttir, VG
Guðjón S. Brjánsson, Samfylkingu

DEILA