Lítil veiði í Laugardalsá

Veiði er lokið í Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi og sumarið er það næst lélegasta frá aldamótum. Í tölum sem birtast á vef Landssambands veiðifélaga kemur fram að 175 laxar bárust á land, 16 fleiri en hörmungarsumarið 2012 þegar veiðin var 159 laxar. Meðalveiðin frá 2000 er 338 laxar og veiðin í sumar því rétt rúmlega helmingur af því sem áin hefur gefið í meðalári.

Ekki eru komnar lokatölur úr Langadalsá en veiði lauk þar á sunnudaginn. Síðustu tölur eru frá 6. september og þá voru komnir 125 laxar á land.

Ytri-Rangá trónir sem fyrr á toppi íslenskra laxveiðiá með 6.835 laxa en veiði er ekki lokið í Rangánum.

smari@bb.is

DEILA