Kvennaliðið í 4. sæti

U17 ára landsliðin hafa lokið keppni í NEVZA móti unglinga í IKAST. Stelpurnar jöfnuðu sinn besta árangur með því að enda í 4. sæti mótsins en strákarnir enduðu í 7. sæti. Auður Líf Benediktsdóttir og Hafsteinn Már Sigurðsson úr Vestra voru nánast allan tímann í byrjunarliði.

Úrslitaleikirnir voru í dag þar sem stelpurnar spiluðu við Finnland um þriðja sæti mótsins. Finnar unnu leikinn 3-0 og endaði Ísland því í fjórða sæti mótsins. Danir unnu Svía í úrslitaleiknum einnig 3-0 og hampaði heimaliðið meistaratitlinum í lok móts. Að vanda var draumaliðið verðlaunað og hampaði fyrirliðinn Matthildur Einarsdóttir MVP verðlaununum.

Drengjaliðið var í umspili um 5.-7. sæti í mótinu en tapaði báðum leikjum sínum þar og hafnaði því í sjöunda sæti mótsins. Lið Íslands er ungt að árum og á svo sannarlega framtíðina fyrir sér enda í góðum höndum þjálfara sinna en þetta er nánast sama lið og spilaði í Evrópukeppni U17 á síðasta ári sem keppti bæði í Danmörku í desember og í Búlgaríu í apríl.

Svíar unnu mótið í drengjaflokki eftir æsispennandi úrslitaleik gegn heimaliði Danmerkur en Finnar unnu til bronsverðlauna eftir sigur á Englandi. David Ahman frá Svíþjóð var MVP drengjamótsins.

Í næstu viku fer Kjartan Óli Kristinsson í Vestra til Englands með U19 landsliðinu.

bryndis@bb.is

DEILA