Körfuboltinn fer að rúlla um helgina

Meistaraflokkur Vestra á síðasta keppnistímabili en liðið hefur tekið nokkrum breytingum.

Körfuboltatímabilið fer af stað af fullum krafti á næstu helgi. Meistaraflokkur karla hefur leik á Íslandsmótinu á föstudaginn með heimaleik  gegn Snæfelli. Frítt er inn á leikinn og eru Ísfirðingar og nærsveitarmenn hvattir til að fjölmenna á leikinn og styðja við strákana. Á leiknum verður hægt að kaupa ársmiða á alla heimaleiki liðsins á Íslandsmótinu auk þess sem grillaðir hamborgarar verða í boði fyrir leik á litlar 1.000 kr.

Á laugardag og sunnudag hefja svo stúlkurnar í 9. flokki leik í B-riðli Íslandsmótsins. Fjölliðamót B-riðils fer fram á Ísafirði og hefst kl. 15 á laugardag með leik Vestra og Snæfells. Á sunnudagsmorgun kl. 10:15 mæta stelpurnar svo Haukum og kl. 12:45 KR. Sjoppa Barna- og unglingaráðs verður að sjálfsögðu opin og heitt á könnunni.

Strákarnir í 10. flokki taka einnig þátt í fjölliðamóti um helgina og hefja leik í A-riðli. Vestri hefur tekið upp samstarf við Skallagrím og tefla félögin fram sameiginlegu liði á Íslandsmótinu í vetur. Mótið fer fram í Ásgarði í Garðabæ og verða mótherjar okkar manna, auk heimamanna í Stjörnunni, Fjölnir, KR og Valur.

Á sama tíma leggur Vestri-B svo úr höfn með tveimur útileikjum í 3. deild karla. Fyrri leikur liðsins fer fram í íþróttahúsinu Strandgötu í Hafnarfirði kl. 16:30 en þar mætir Vestri C-liði Hauka. Á sunnudag bregða piltarnir sér á Álftanesið og mæta þar heimamönnum kl. 12:00.

Að lokum spila stelpurnar í minnibolta 11 ára á fyrsta móti sínu í vetur um helgina en mótið fer fram í Smáranum og er haldið af Breiðabliki.

smari@bb.is

DEILA