Hvalárvirkjun

Gunnar Njálsson

Það hefur verið ótrúlegt og hreint dapurlegt að hlusta á alla þá umræðu sem hefur farið fram um hina fyrirhuguðu Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði. Umræða sem einkennist af ótrúlegri græðgi, skemmdarfýsn, skammsýni og meðvirkni með þeim sem hafa skipað sig sem björgunarmenn íbúa á Vestfjörðum. Margt gékk á í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar á sýnum tíma sem einkenndist af mikilli spillingu og ofbeldi og nú eru margir á Vestfjörðum og víðar í hlutverki Smára Geirssonar fyrrverandi bæjarstjóra Fjarðarbyggðar og þeir munu svo sannarlega umbun fyrir seinna meir.

Nú eru flestir sammála um að friðlýsa eigi Þjórsárverin og stóran hluta miðhálendisins. Er einhver munur á ósnortnum víðernum á Ófeigsfjarðarheiði og víðar á Vestfjörðum og á Þjórsárverum? Þar sem ríkisstjórnir og þjóðin hefur gerst aðilar af margsskonar samningum um bætta meðferð á íslenskri náttúru, þá vil ég spyrja. hafa þeir landeigendur og forsvarsmenn sveitarstjórna sem hafa landsumráð á fyrirhuguðum virkjunarsvæðum á Ófeigsfjarðarheiði, spurt næstu kynslóðir um leifi? Nei, líklega ekki, en þeir mega vita það, að þeir eru ekki bara eigendur, heldur aðeins gæslumenn landsins. Íslenska þjóðin á þetta land. Hefur sala á vatnsréttindum landeigenda farið lögformlega leið og samþykkt í hreppsnefnd Árneshrepps?

Nú keppist mannkynið sem mest við að eyðileggja sem mest af okkar fagra hnetti sem er svo sannarlega lifandi og finnur til af þessum sárum sem sífellt bætast við. Eins er með eyjuna okkar fögru og nú er ætlunin að setja flögusár á höfuð hennar. Það er ekki mitt, eða þeirra sem mótmæla þessari aðför að Vestfirskri náttúru að leita lausnar á því hvernig á að koma á hringtengingu og útvega raforku á Vestfjörðum. Lausnin er til, en hún á ekki að felast í því að stórskemma ósnortin víðerni.

Gunnar Njálsson

Grundarfirði

DEILA