Húsnæðisvandinn mismunandi eftir landssvæðum

Skortur er á íbúðarhúsnæði um allt land en vandinn er mismunandi eftir landsvæðum. Á meðan ör fólksfjölgun og hæg uppbygging hefur valdið skorti á höfuðborgarsvæðinu, er vandinn á landsbyggðinni víða sá að markaðsverð húsnæðis er undir byggingarkostnaði. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga eru tæki til að koma í veg fyrir að ástand á borð við það sem nú er á húsnæðismarkaði skapist aftur. Þetta er á meðal þess sem fram kom í erindi Sigrúnar Ástu Magnúsdóttur, verkefnastjóra húsnæðisáætlana hjá Íbúðalánasjóði, á Húsnæðisþingi sem haldið var á mánudag.

Þúsundir ungs fólks fastar í foreldrahúsum

Ísland hefur gengið í gegnum sveiflur á húsnæðismarkaði. Tiltölulega stórir árgangar ungs fólks hafa komið inn á fasteignamarkað á undanförnum árum á sama tíma og nýbyggingar hafa ekki verið færri síðan á 6. áratugnum. Um þessar mundir eru búa um 20.000 manns á aldrinum 20-29 ára í foreldrahúsum og hefur sá fjöldi farið vaxandi. Fjöldi íbúa á hverja íbúð hér á landi hefur hækkað undanfarin ár á meðan hann hefur almennt farið lækkandi á hinum Norðurlöndunum. Í dag eru um 2,5 íbúar í hverri íbúð á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum eru um 2 íbúar í hverri íbúð.

Flest sveitarfélög á landinu vinna nú að gerð húsnæðisáætlana í samstarfi við Íbúðalánasjóð. Markmiðið með húsnæðisáætlunum er að tryggja að fjölgun íbúða í einstökum sveitarfélögum og á landinu öllu sé í takt við mannfjöldaspár og breyttar fjölskyldugerðir. Með þeim hætti er gengið úr skugga um að allir hafi aðgang að öruggu húsnæði við hæfi. 48 sveitarfélög hafa nú hafið vinnu við húsnæðisáætlun og eru 15 þeirra ýmist langt komin eða hafa birt áætlun.

smari@bb.is

 

 

DEILA