Heiðrúnu veitt heiðursslaufa

Thelma Hjaltadóttir, starfsmaður Sigurvonar, afhenti Heiðrúnu barmnæluna fyrir hönd félagsins á föstudag.

Heiðrúnu Björnsdóttur var á föstudag afhent með viðhöfn fyrsta bleika slaufan á Vestfjörðum í þakkarskyni fyrir störf sín í þágu Krabbameinsfélagsins Sigurvonar. Bleika slaufan, árvekniátak Krabbameinsfélagsins er nú hafið en slaufan er tákn Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameini í konum. Heiðrún hefur starfað fyrir Sigurvon frá endurstofnun félagsins árið 2001 en starfsvæði þess eru norðanverðir Vestfirðir og Strandir. Fyrir þónokkrum árum kom hún ásamt Guðbjörgu Ólafsdóttur á fót stuðningshópnum Vinum í von fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra. Hópurinn starfar enn í dag og hittist tvisvar í mánuði yfir vetrarmánuðina.

„Við eigum alltaf saman notalega stundir er við hittumst,“ segir Heiðrún um Vini í von. „Við fáum okkur morgunkaffi og léttar veitingar og röbbum saman um allt mögulegt. Ákveðinn kjarni mætir alltaf en við tökum alltaf vel á móti nýju fólki og hvetjum alla sem vilja til að kíkja við hjá okkur.“

Söfnunarfé Bleiku slaufunnar í ár rennur til Ráðgjafaþjónustu félagsins með það að markmiði að efla stuðning, fræðslu og ráðgjöf til einstaklinga um allt land sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. Þess má geta Ráðgjafaþjónustan er faglegur bakhjarl starfsmanns þjónustumiðstöðvar Sigurvonar og gott samstarf verið þar á milli um árabil.

bryndis@bb.is

DEILA