Hækkun virðisaukaskatts kemur harðast niður á landsbyggðinni

Stefna stjórnvalda hefur verið að dreifa ferðamönnum betur um landið en samkvæmt úttekt KPMG mun skattahækkun vinna gegn þeim áformum.

Ef gististaðir á landsbyggðinni þyrftu að taka á sig alla hækkun virðisaukaskatts úr 11 prósentum í 22,5 prósent, eins og ríkisstjórnin lagði til í fjármálaáætlun sinni til næstu fimm ára, myndi það leiða til mikils taprekstrar. Afkoma hótela á höfuðborgarsvæðinu myndi auk þess verða nálægt núlli. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í úttekt ráðgjafarfyrirtækisins KPMG um áhrif boðaðra hækkana á virðisaukaskatti á afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu sem kynnt verður á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í dag. Greint er frá úttektinni á Vísi í dag.

Þar kemur fram að ef hækkun virðisaukaskatts úr 11% í 22,5% hefði komið til í byrjun síðasta árs hefði tekjur hótela lækkað um 1.858 milljónir kr. og þá gefa höfundar sér að hótelin hefðu tekið hækkunina á sig að öllu leyti. Það hefði þurrkað út arðsemi hótelanna og reksturinn nálægt núlli.

Að mati KPMG hefði hækkun virðisaukaskatt komið harðast niður á gististöðum á landsbyggðinni og leitti til þess að þeir hefði verið reknir með tapi. „Það er því varla valkostur fyrir félögin að taka á sig alla hækkun virðisaukaskatts, samhliða því sem þau takast á við kjarasamningsbundnar launahækkanir, þar sem verðlagning þjónustunnar er þegar komin að sársaukamörkum í alþjóðlegum samanburði,“ segir í úttektinni.

smari@bb.is

DEILA