Gjaldtaka í Dýrafjarðargöngum?

Munni Dýrafjarðarganga en göngin opna haustið 2020.

Mögulega verður innheimt gjald fyrir að aka í gegnum Dýrafjarðargöng. Þetta kemur fram í viðtali við Valgerði Gunnarsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins og formann umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Í Fréttablaðinu í dag er rætt við hana um gjaldtöku í vegakerfinu og þá sérstaklega nýja skoðanakönnun þar sem almenningur var spurður um afstöðu til vegtolla á stofnbrautum til og frá Reykjavík. Valgerður segir orðrétt: „Við erum ekkert eina þjóðin sem hefur velt þessum hlutum upp. Við erum með Hvalfjarðargöngin, þar sem er gjaldtaka, Vaðlaheiðargöngin þar sem verður gjaldtaka, við erum með Dýrafjarðargöngin, mögulega með gjaldtöku.“

Þjóðin tvískipt í afstöðu til vegtolla

Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis segjast 56 prósent þeirra sem afstöðu taka ekki vera reiðubúnir til að greiða veggjöld ef stofnbrautir frá Reykjavík verða tvöfaldaðar. Um 44 prósent segjast vera reiðubúin til að greiða veggjöld. Séu svörin skoðuð í heild segjast 38 prósent vera reiðubúin til að greiða veggjöld, 48 prósent segjast ekki reiðubúin til þess, 13 prósent segjast óákveðin en eitt prósent svarar ekki spurningunni.

 

DEILA