Ekkert bendir til stórrar slysasleppingar

Laxinn sem veiddist í Laugardalsá í síðustu viku.

Engar vísbendingar eru um stóra slysasleppingu úr laxeldiskvíum á Vestfjörðum. Að beiðni Landssambands veiðifélaga kannaði Fiskistofa ástand í sjö ám á Vestfjörðum; í Dýrafirði, Arnarfirði, Súgandafirði og í Ísafjarðardjúpi. Guðni Magnús Eiríksson, sviðstjóri á lax- og silungaveiðisviði Fiskistofu, segir að verið sé að taka saman niðurstöður athugunarinnar og of snemmt að segja til um það hvort eldislaxar hafi veiðst. Ekkert bendi þó til að stórfelld slepping hafi átt sér stað. Í athuguninni voru tekin sýni úr fiskum sem verða rannsökuð nánar.

Í Morgunblaðinu í dag er greint frá að Veiðifélag Laugardalsár hafi fengið leyfi hjá fiskistofu til að draga fyrir lax neðarlega í ánni, en lax sem að öllum líkindum er eldislax veiddist í ánni seint í síðasta mánuði.

smari@bb.is

DEILA