Braust úr höndum manna

Svo ferst Reyni Traustasyni orð er hann lýsir afreki Hörpu nokkurrar frá Neðri Breiðadal í Önundarfirði í frásögn af sundafreki hennar þann 8. október 1987. Harpa var mikil afbragðs skepna, mjólkaði vel og við góða heilsu en þannig háttaði til í landbúnaði þess tíma að fækka skyldi í fjósinu. Þegar leiða átti Hörpu til slátrunar á Flateyri sleit hún sig lausa og bókstaflega flaug að sögn sjónarvotta yfir fiskikör sem urðu á vegi hennar á leið til sjávar. Þar tók hún sundþekkingu sína til kostana og synti einbeitt og ákveðin, fyrst út fjörðinn en síðan beina leið yfir og mátti sjá halann upp úr sjónum eins og loftnet. Hinu megin fjarðar tóku gestrisnir bændur á Kirkjubóli í Valþjófsdal, þau Guðmundur Steinar og Sigríður á móti sunddrottningunni og buðu henni í hús, upp frá því var bar hún nafnið Sæunn. Þeir Halldór í Breiðadal og Guðmundur í Valþjófsdal handsöluðu eigendaskiptin í fjörunni og héldu svo hver til síns heima.

Sæunn skokkaði lét á fæti á sinn bás í Valþjófsdal, rétt eins og hún hefði bara brugðið sér á beit og eins og sannri sækú sæmdi ól hún spræka kvígu á sjómannadaginn vorið eftir, sú var nefnd Hafdís. Sæunn var aldrei aftur færð í sláturhús og þegar hennar tími nálgaðist fór Guðmundur Steinar bóndi með hana á sjávarkambinn þar sem hún hafði komið á land, felldi hana og heygði.

Sund Sæunnar vakti heimsathygli og á facebook síðu sem Benni í dal, sonur þeirra Sigríðar og Guðmundar Steinars má lesa um lífshlaup hennar og afrek en í minningu Sæunnar var unglingadeild björgunarsveitarinnar á Flateyri nefnd Sæunn.

Sæunnarsund 2018

Nú stendur til að halda merki Sæunnar enn frekar á lofti með opinberu sjósundi í kjölfar Sæunnar, frá höfninni á Flateyri og yfir í Valþjófsdal. Ekki hefur verið sett niður dagsetning en ágúst 2018 er líklegasti tíminn enda sjávarhiti þá með hæsta móti. Áhugasömum er bent á að læka síðu Sæunnarsunds 2018, þar munu koma inn upplýsingar þegar nær dregur.

bryndis@bb.is

DEILA