Bleika slaufan 2017

Bleika slaufan 2017

Líkt og undanfarin 10 ár tileinkar Krabbameinsfélag Íslands októbermánuð baráttu gegn krabbameini hjá konum. Söfnunarfé Bleiku slaufunnar í ár rennur til Ráðgjafarþjónustu félagsins með það að markmiði að efla stuðning, fræðslu og ráðgjöf um allt land til einstaklinga sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. Slaufan er að þessu sinni hönnuð af Ásu Gunnlaugsdóttur gullsmið.

Krabbamein snertir líf flestra

Þriðji hver einstaklingur greinist með krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni og afar mikilvægt er að þeir og aðstandendur þeirra geti gengið að áreiðanlegri ráðgjöf og stuðningi í veikindunum og í kjölfar þeirra.

Í nýrri könnun Krabbameinsfélagsins meðal 1.500 einstaklinga á aldrinum 18-75 ára* kom fram að rúmlega helmingur átti náinn ættingja sem greinst hafði með krabbamein og enn fleiri þekktu einhvern persónulega. Þá höfðu fimm prósent sjálf greinst með sjúkdóminn.

Mun fleiri lifa en áður

Sífellt betur tekst að greina krabbamein tímanlega, ráða niðurlögum þeirra og halda sjúkdómunum í skefjum. Nú er svo komið að um 70% þeirra sem greinast með krabbamein eru á lífi fimm árum síðar. Í dag eru rúmlega 14.000 þúsund einstaklingar á lífi sem greinst hafa með krabbamein og þeim fer fjölgandi. Árið 1976 var talan hins vegar tæplega 2.300. Áætlað er að árið 2026 verði fjöldinn um 18.300. Þessi jákvæða þróun hefur í för með sér ört vaxandi þörf fyrir þjónustu og stuðning við þá sem hafa greinst og aðstandendur þeirra, bæði meðan á veikindum stendur og þegar þau eru yfirstaðin.

Í könnuninni kom meðal annars fram:

  • 90% þeirra sem höfðu sjálfir greinst með krabbamein töldu stuðning vegna réttindamála ófullnægjandi en um 50% allra svarenda voru þeirrar skoðunar.
  • 70% þeirra sem höfðu sjálfir greinst með krabbamein sögðu að stuðningi vegna sálrænna einkenna væri ekki nægjanlega sinnt og 80% svarenda var sama sinnis.
  • 60% þeirra sem höfðu sjálfir greinst töldu stuðning við aðstandendur ófullnægjandi á meðan á meðferð stóð og 70% svarenda voru því sammála.

„Það er áfall að greinast með krabbamein, bæði fyrir þann sem greinist, en ekki síður fjölskyldu og aðstandendur. Veikindaferlið tekur oft mikið á, á margan og ólíkan hátt og verkefninu er ekki endilega lokið þó sjúkdómurinn hafi læknast. Við höfum ítrekað séð hversu mikilvægt það er að geta gengið að áreiðanlegum upplýsingum, stuðningi og faglegri aðstoð í slíkum aðstæðum. Þess vegna skiptir miklu máli að við eflum þennan hluta starfsemi okkar,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.

Ráðgjafarþjónusta í 10 ár fólki að kostnaðarlausu

Hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins er boðið upp á þjónustu fagaðila án endurgjalds. Hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjöf og sálfræðiþjónusta er í boði alla virka daga  og boðið er upp á viðtöl og einstaklingsráðgjöf, símaráðgjöf, slökun, fyrirlestra auk starfsemi stuðningshópa félagsins.  Einnig er fjöldi námskeiða og fyrirlestra í boði sem mæta þörfum þeirra sem til Ráðgjafarþjónustunnar leita.

bryndis@bb.is

 

DEILA