Áhyggjur af stöðu leikskólabarna

Samráðsnefnd Félags stjórnenda í leikskólum hefur áhyggjur af stöðu barna í leikskólum landsins. Skýrsla OECD sýnir að börn á Íslandi hafa lengsta viðveru hvern dag og flesta leikskóladaga á ári.

Í ályktun nefndarinnar kemur fram að rými fyrir hvert barn í leikskólum á Íslandi er of lítið með tilliti til fjölda barna og dvalartíma. Mikið álag er fyrir ungt barn að vera í stórum hópi í litlu rými svo langan dag. Viðvera barna hefur aukist síðustu ár og dvelja þau í leikskóla að meðaltali yfir átta klukkustundir á dag.

„Áhyggjur okkar beinast að því að börn geti orðið fyrir röskun á geðtengslamyndun sem getur leitt til kvíða og einbeitingarskorts. Viðvarandi starfsmannavelta eykur einnig á þennan vanda. Við viljum beina orðum okkar til foreldra, sveitastjórna/rekstraraðila leikskóla og til atvinnulífsins alls. Stöndum saman að velferð barna og finnum leiðir til að bæta aðstöðu þeirra nú og til framtíðar,“ segir í ályktuninni.

smari@bb.is

DEILA