Áhrif ferðamennsku á umhverfi og samfélög

Dr. Brack Hale.

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða á föstudaginn kemur mun Brack Hale, dósent í umhverfisfræði við Franklin University í Sviss, fjalla um rannsóknarverkefni sem hann vann við Háskólasetrið síðastliðið vor. Í verkefninu bar hann saman möguleg áhrif ferðamennsku og sérstaklega námsferða á umhverfi og samfélag á Vestfjörðum.

Í rannsókn sinni notaði Brack landmælingar til að kortleggja vinsælustu áfangastaði ferðamanna annarsvegar og áfangastaði námsferðalanga hinsvegar. Í námsferðum er gjarnan farið á viðkvæma og leynda staði sem ekki eru búnir undir fjöldaferðamennsku og því kunna áhrif slíkra ferða að vera talsverð. Niðurstöðurnar benda til þess að námsferðir geti haft meiri áhrif á samfélag og náttúru en almenn ferðamennska. Slík vitneskja getur nýst háskólum víða um heim við að undirbúa nemendur betur undir það að verða sjálfbærir ferðamenn.

Brack er dósent í umhverfisfræði við Franklin University í Sviss þar sem hann er einnig forstöðumaður Sjálfbærnimiðstöðvarinnar við skólann. Hann kemur reglulega með nemendahópa frá Franklin til Íslands og Vestfjarða og er einmitt staddur á Ísafirði með einum slíkum þessar vikurnar. Hann lauk M.E.M. frá Nicholas School of Environment við Duke University og er með doktorspróf frá Nelson Institute for Environmental Studies við University of Wisconsin-Madison.

Vísindaportið stendur frá 12.10-13.00 í kaffistofu Háskólaseturs og er að vanda öllum opið. Erindi vikunnar fer fram á ensku.

smari@bb.is

DEILA