Vestri og Sindri mætast í bikarnum

Í dag var dregið í 32 liða úrslit Maltbikarsins í höfuðstöðvum KKÍ – Körfuknattleikssamband Íslands. Meistaraflokkur Vestra mætir Sindra frá Hornafirði en liðið leikur í 2. deild Íslandsmótsins. Leikið verður í 32 liða úrslitunum dagana 14.-16. október og leikur Vestra og Sindra verður á Hornafirði.

Vestramenn hitta fyrir gamlan liðsmann, en Yima Chia-Kur sem lék með Vestra á síðasta tímabili er nú spilandi þjálfari Sindra.

B-lið Vestra tekur einnig þátt í Maltbikarnum og dróst liðið gegn B-liði KR og verður leikið í íþróttahúsinu á Torfnesi.

smari@bb.is

DEILA