Vagnstjórarnir í skýjunum

Eigendahópurinn sem tók yfir Vagninn í vor.

Eigendur Vagnsins á Flateyri í skýjunum með fjársöfnun sem þeir stóðu fyrir á Karolina Fund. Lagt var upp með að safna 2,8 milljónum kr. en þegar söfnuninni lauk voru komnar 3,6 milljónir kr. í kassann. Húsnæði Vagnsins er komið til ára sinna og viðhald setið á hakanum og efst á lista er að laga þakið sem míglekur. Reksturinn á þessari fornfrægu krá stendur ekki undir fjárfrekum framkvæmdum og því var farin sú leið að leita til velunnarra Vagnsins.

„Við erum gríðarlega þakklát öllum sem styrktu og framlögin öll. Vagninn á marga góða vini og þið eruð frábær,“ segir á Facebooksíðu Vagnsins. „Það sem umfram safnaðist mun hjálpa okkur í næstu skrefum uppbyggingar. Á listanum eru gluggaútskiptingar og endurnýjun klæðningar sem hefur þurft að þola tímana tvenna. Svo er jú yfirhalning innandyra, bætt eldhús betri garður og svo mætti lengi áfram telja. Við tökum eitt skref í einu. Víst er að fyrstu skrefin verða lauflétt með þessum byr!“

DEILA