Þórunn Snorradóttir og Torfi Einarsson

Á morgun lætur Torfi Einarsson af störfum sem útibússtjóri Sjóvár á Ísafirði eftir áratuga starf. Við keflinu tekur Þórunn Snorradóttir sem hefur einnig starfað hjá Sjóvá um árabil og margir Vestfirðingar þekkja nú þegar.

Torfi og Þórunn skoða aðstæður í seiðaeldisstöð Arctic Fish í Tálknafirði.

Lykilatriði að vera sýnilegur

Torfi hóf störf sem umboðsmaður fyrir Sjóvá árið 1996, á sama tíma og hann starfaði hjá Eimskipum við gámastýringu. Um aldamótin var að frumkvæði Torfa tekin ákvörðun um að stofna útibú á Ísafirði og hefur hann stýrt því allar götur síðan. Starfsemin hefur vaxið jafnt og þétt undir stjórn Torfa og í dag starfa fjórir starfsmenn hjá Sjóvá á Ísafirði, en félagið er með mjög stóra hlutdeild á tryggingamarkaðnum hér fyrir vestan. Torfi segir lykilatriði að vera sýnilegur og láta fólk vita af þeirri þjónustu sem er í boði. „Það kaupir enginn vöru sem er geymd ofan í kassa. Það þarf sýnileika og við erum orðin það í dag, miklu sýnilegri.“

Lærði að umgangast fólk í öllum starfsstéttum

Torfi býr yfir afar fjölbreyttri starfsreynslu. Hann var á sjó frá 13 ára aldri en hóf síðan störf hjá lögreglunni rúmlega tvítugur. Þar starfaði hann fyrst sem varðstjóri og síðar sem yfirlögregluþjónn. Torfi sleppti þó ekki alveg taki af sjónum og vann á sumrin á togara. Hann leigði síðar út flugvélar, búnað og bensín fyrir flugfélagið Erni og seldi auk þess ýmis ökutæki og búnað fyrir Ingvar Helgason. Árið 2000 sneri hann sér hins vegar alfarið að tryggingageiranum þegar hann tók við nýstofnuðu útibúi Sjóvár á Ísafirði. Þar átti fyrri starfsreynsla eftir að nýtast honum vel. „Þegar maður fer í skóla þá lærir maður lítið um margt. En þegar maður gerir þetta svona og lærir í vinnunni og hinum ýmsu stéttum þá lærir maður mikið um margt – og líka fyrst og fremst að umgangast fólk í öllum stéttum,“ segir Torfi.

Spennandi tímar í starfsemi tengdri sjávarútveginum

Það er Þórunn Snorradóttir sem tekur við keflinu af Torfa en hún bjó fyrir vestan þegar hún hóf störf hjá Sjóvá um aldamótin. Frá árinu 2006 starfaði hún á fyrirtækjasviði Sjóvár, lengst af sem viðskiptastjóri. Þórunni þykir afar spennandi að vera komin aftur vestur. „Hér eru mörg tækifæri í atvinnulífinu sem eru flest tengd sjávarútvegi enda nálægðin við hafið mikil,“ segir Þórunn. Hún er afar áhugasöm um þær breytingar sem eru að verða á starfsemi tengdri sjávarútveginum, s.s. þeim miklu tækifærum sem felast í fiskeldinu og ýmiskonar nýsköpun sem hafi sprottið fram í tengslum við sjávarútveginn. „Eldri kynslóðir þekkja hvernig sauðkindin var nýtt nánast að fullu. Nú er það fiskurinn sem við nýtum að fullu og er það jafnvel orðið þannig að roðið sem við hentum er orðið hvað verðmætast.“

Komin aftur heim

Þórunn segist vera mikill orkubolti sem hafi alltaf nóg fyrir stafni. Utan vinnutíma syngur hún m.a. í tveggja manna hljómsveit og stundar fjarnám í viðskiptalögfræði við Háskólann á Bifröst. Þórunn er spennt fyrir komandi tímum fyrir vestan og er afar ánægð með að vera flutt aftur hingað, segir að hér sé gott að búa og hún sé í raun komin heim.

Opið hús á morgun

Í tilefni af þessum breytingum verður opið hús hjá útibúi Sjóvár Ísafirði við Silfurtorg á morgun miðvikudag kl. 13:00-16:00. Þar verður Torfi kvaddur og Þórunn boðin velkomin og eru allir hjartanlega velkomnir.

smari@bb.is

DEILA