Þurfa að færa kvíar vegna uppsöfnunar úrgangs

Sjóvkíar við Hlaðseyri. Mynd: mbl.is/Helgi Bjarnason.

Botndýralíf í innanverðum Patreksfirði hefur tekið breytingum vegna uppsafnaðs lífræns úrgangs frá laxeldi við Hlaðseyri. Í skýrslu Náttúrstofu Vestfjarðar kemur fram að botndýrasamfélög á kvíasvæðinu og innan við það hafi verið í slæmu ástandi en í nokkra tuga metra fjarlægð frá kvíunum var ástandið betra. Frá þessu var fyrst greint í Fréttablaðinu.

Sjávarbotninn við Hlaðseyri er tiltölulega flatur en dreifing lífræns úrgangs virðist ekki jöfn umhverfis kvíarnar. Útlitsleg einkenni og brennisteinslykt sets sýndu merki um lífræna uppsöfnun við kvíarnar og mælingar sýna að lífræn uppsöfnun hafi einnig átt sér stað innan við kvíasvæðið og sjávarstraumar virðast því flytja lífrænan úrgang meira í áttina inn fjörðinn.

Arnarlax óskaði eftir botnsýnatöku við Hlaðseyri í Patreksfirði á síðasta ári og vann Náttúrustofa Vestfjarða rannsóknina. Fyrirtækið var að reyna að fá alþjóðlega ASC-vottun sem er vottun fyrir ábyrgt og sjálfbært fiskeldi í sjó. Eldissvæðið við Hlaðseyri stenst ekki þær kröfur.

Í Fréttablaðinu er haft eftir Kristian Matthíassyni, forstjóra Arnarlax, að kvíarnar verði færðar og fiskur fari ekki aftur út við Hlaðseyri. „Við erum búin að slátra úr kvíunum og munum svo setja kvíarnar annað. Þessi staðsetning uppfyllir ekki þau skilyrði sem við setjum umhverfinu okkar,“ segir Kristian.

Kort af kvíasvæðinu.

smari@bb.is

DEILA