Þingmenn, minnkið röflið

Þingeyrarakademían kemur til dyranna eins og hún er klædd.

Í tilefni af þingsetningu beinir Þingeyrarakademían því til þingmanna að þeir minnki „þetta endalausa röfl úr ræðustól þingsins daginn út og daginn inn.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá akademíunni. Fyrir þá sem ekki vita er Þingeyrarakademían stór hópur manna sem stundar morgunsund og heita pottinn á Þingeyri. Þar eru ýmiskonar innanlands- og heimsvandamál rædd og jafnvel leyst.

„Hættið að rífast en snúið ykkur með oddi og egg að þeim vandamálum sem þið eruð kosin til að leysa. Forgangsraðið fjárveitingum. Þeir sem nóg hafa þurfa ekki meira. Gerið meira en að hugsa til þeirra sem minna mega sín. Munið að þið eigið að móta stefnuna fyrir þjóðina. Ef hún er skynsamleg fylgir þjóðin ykkur. Annars fer hún út og suður,“ segir í tilkynningunni og þingmenn eru jafnframt hvattir til að taka lagið einstaka sinnum til að styrkja móralinn og akademían leggur til Öxar við ána og Fyrr var oft í koti kátt.

Arfleifð Jóns Sigurðssonar forseta er Þingeyrarakademíunni hjartkær og í tilkynningunni segir að forsetinn vestfirski fylgist með þingmönnum daglega.

„Ekki amalegt að hafa hann sem fyrirmynd. Hann var bæði kurteis, þinglegur og yfirvegaður við alla. Ekki síst Dani. Hann vann sleitulaust og lagði áherslu á að menn lærðu af sögunni. Mörg stórmenni veraldarsögunnar hafa hamrað á því að ekkert er nýtt undir sólinni!“

smari@bb.is

DEILA