Tap í síðasta leik

Mynd úr safni.

Það var markaveisla á Torfnesvelli á Ísafirði um helgina þegar leikið var í síðustu umferð 2. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Vestri og Höttur áttust við í fjörugum leik og mörkin létu ekki á sér standa og eftir einungis tveggja mínútna leik kom Viktor Júlíusson heimamönnum í 1-0 og á fjórðu mínútu var Vestri kominn með tveggja marka forystu með marki Friðriks Þóris Hjaltasonar. Sá síðarnefndi gat ekki fagnað markinu lengi því hann fauk út af með beint rautt spjald á 10 mínútu er hann braut á leikmanni Hattar í eigin vítateig og var dæmt víti sem Ignacio Gonzales Martin skoraði úr. Einum færri komust Vestramenn í 3-1 með vítaspyrnu Michael Saul Halpin á 37. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Ignacio Gonzales Martin var aftur á ferðinni fyrir Hött á 56. mínútu og minnkaði muninn í 3-2 og einum leikmanni færri gekk Vestra illa að halda aftur af Hetti og á 76. mínútu jafnaði Brynjar Árnason leikinn og lokamínútum venjulegs leiktíma fengu gestirnir víti sem Nenad Zinovic skoraði úr og reyndist það vera sigurmarkið.

Vestri endaði deildina í níunda sæti með 27 stig.

smari@bb.is

DEILA