Í vor stóð Háskólasetur Vestfjarða fyrir ráðstefnu um móttöku skemmtiferðaskipa í samstarfi við fleiri aðila. Þótti ráðstefnan takast vel og nú, hálfu ári síðar, er fróðlegt að vita hvernig stefnumótun Ísafjarðarbæjar í málaflokknum miðar áfram og hvort efniviður ráðstefnunnar hafi nýst í þeirri vinnu. Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir kemur í Vísindaport vikunnar til að fara yfir stöðu mála en Sigríður er formaður starfshóps bæjarins um komur skemmtiferðaskipa.

Um tuttugu ár eru síðan Ísafjarðarbær markaði sér fyrst stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa á Ísafirði. Markmiðið þá var að Ísafjarðarhöfn yrði þriðja stærsta viðkomuhöfn slíkra skipa á Íslandi. Það markmið náðist fyrir allmörgum árum og síðasta vetur var starfshópur settur á laggirnar á vegum bæjarins til að móta að nýju stefnu í málaflokknum. Bærinn tók einnig virkan þátt í ráðstefnunni „Skemmtiferðaskip á réttri leið?“ sem fram fór á Ísafirði í byrjun apríl en ráðstefnan var samstarfsverkefni Háskólaseturs Vestfjarða, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Ferðamálasamtaka Vestfjarða, Markaðsstofu Vestfjarða, Ísafjarðarbæjar, Vesturferða og fleiri aðila. Á ráðstefnunni kenndi margra grasa og var tilgangur hennar m.a. sá að nýtast við frekari stefnumótun sveitarfélaga í þessum vaxandi hluta ferðaþjónustu á Íslandi.

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir starfar sem verkefnastjóri hjá Impru á Nýsköpunarmiðstöð. Hún hefur víðtæka reynslu úr ferðaþjónustu, hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Ísafjarðarbæ og gegnir nú formennsku í starfshópi bæjarins sem ætlað er að móta tillögur um hvernig best verður staðið að móttöku skemmtiferðaskipa í sveitarfélaginu til framtíðar með sjálfbærni að leiðarljósi.

Vísindaport er opið öllum áhugasömum en það stendur frá 12.10-13.00 á morgun föstudag í kaffistofu Háskólaseturs.

smari@bb.is

DEILA