Skoða möguleika á líkamsræktarstöð á Torfnesi

Ísafjarðarbær hefur áhuga á að koma upp líkamsræktaraðstöðu á Torfnesi. Þetta kemur fram í bókun fulltrúa meirihlutans í bæjarráði. Tilefni bókunarinnar er tillaga Daníels Jakobssonar, oddvita Sjálfstæðisflokksins, um að sveitarfélagið komi með einhverjum hætti að uppbyggingu líkamsræktaraðstöðu. Stúdíó Dan hefur rekið líkamsrækt um langt árabil en í febrúar hættir fyrirtækið rekstri og hefur nú þegar selt húsnæðið. Í tillögu Daníels kemur að aðgangur að góðri líkamsræktarstöð skipti marga íbúa miklu máli en vafamál hvort að Ísfirðingar séu nógu margir til að standa undir rekstrinum á markaðslegum forsendum, að minnsta kosti ef að byggja þarf upp aðstöðuna frá grunni. Þá komi til kasta bæjaryfirvalda með einhverju móti.

Í bókun meirihlutans kemur fram að verið er að kanna möguleika á framtíðarstaðsetningu við íþróttahúsið á Torfnesi en meirihlutinn telur æskilegt væri þó að leita samninga við eiganda þess húsnæðis sem Stúdíó Dan nýtir í dag um að hýsa líkamsræktarstöð þar til nýtt húsnæði verður tilbúið. „Það er mjög mikilvægt fyrir bæjarfélagið að hér sé starfandi líkamsræktarstöð enda brýnt lýðheilsumál og eykur lífsgæði bæjarbúa,“ segir í bókuninni.

smari@bb.is

DEILA